Bookmark and Share

Hrútfjallstindar

Gengið á Hrútfjallstinda, tignarlegt fjall í Öræfasveit sem gefur fegurstu alpatindum lítið eftir.

Erfiðleikastig ferðar: 4+ af 5 mögulegum. Mjög krefjandi ferð.

Gangan hefst einungis örfáum metrum yfir sjávarmáli þar sem við byrjum á því að fylgja slóð Skaftafellsjökuls meðfram Hafrafelli. Við vinnum okkur upp í hlíðar fjallsins og yfir það þar til við komum að jökulbreiðunni sem umkringir Hrútfjallstindana. Tindarnir eru fjórir og það fer allt eftir getu hópsins á hvaða tind er farið, allir eru þeir stórglæsilegir og umhverfið er magnað.

Uppgöngutími: 8-10 klst. Ferðatími samtals: 11-15 klst.

Hæð: 1875 metrar
Gönguhækkun: ~1750 metrar

Ef einhver staður á Íslandi kemst nálægt því að líkjast háfjöllum stærstu fjallgarða heimsins þá eru það fjöllin við ofanverðan Svínafellsjökul. Þau ná að sjálfsögðu ekki sömu hæð yfir sjávarmáli en það skiptir litlu máli og gleymist fljótt þegar maður virðir þessa risa fyrir sér af láglendinu. Vígalegar jökulhetturnar, ógurlegir skriðjöklarnir og hvassir tindarnir sveipa þennan stað ævintýrablæ. Hrútfjallstindar rísa upp úr Vatnajökli á milli Svínafellsjökuls og Skaftafellsjökuls og fjórir tindar fjallsins ná frá 1756 metrum og sá hæsti er 1875 m hár. Þessir fögru tindar bjóða upp á bæði göngu og klifurleiðir af mismunandi erfiðleikastigum og eru því draumaveröld fjallamanna af öllum stærðum og gerðum.

Í göngunni sjálfri og af toppnum er ógleymanlegt útsýni. Á björtum dögum er slíkt útsýni án nokkurs vafa í heimsklassa og í þetta sinn, ekki miðað við höfðatölu. Á láglendinu langt fyrir neðan lúrir gróðurvinin Skaftafell og skriðjökultungurnar teygja sig í átt að svörtum söndum Öræfasveitarinnar, svört suðurströndin blasir við og Norður Atlantshafið nær svo langt sem augað eygir. Í norðri ríkir ísbreiða Vatnajökuls í hvíta hamnum sínum og hér og þar má sjá ýmsa fallega tinda rísa upp úr jökulbreiðunni. Leiðin sem við förum á toppinn krefst ekki neinnar tæknilegrar kunnáttu og felur ekki í sér neitt klifur en nauðsynlegt er að þáttakendur séu í mjög góðu líkamlegu formi þar sem gangan er löng og afar krefjandi.

Við bjóðum einnig upp á sérsniðnar ferðir og meira krefjandi alpaleiðir / klifurleiðir á Hrútfjallstinda ef áhugi er fyrir hendi. Ekki hika við að hafa samband við okkur varðandi slíkar ferðir. Suðurhlíð Hrútfjalls og allir fjórir tindarnir eru vinsælir valkostir, (apríl - júní).

Gagnlegar upplýsingar:


Við bjóðum einnig upp á reglulegar brottfarir yfir sumartímann:
Miðvikudaga og föstudaga kl. ~ 05:00 f.h. frá 1. júní - 1. september.
Lagt er upp frá Glacier Guides söluskrifstofunni í Skaftafelli.
Veður og aðstæður á fjallinu skipta miklu máli og taka þarf tillit til þess.


Fjarlægð frá Reykjavík: 350 km. Lengd ferðar (frá Skaftafelli): 11-15 klst. Aldurstakmark: 16 ár.
Lágmarksfjöldi: 3 manns. Hámarksfjöldi: 30 manns.
Innifalið: Leiðsögn og allur nauðsynlegur sérhæfður jöklabúnaður. Vinsamlegast skoðið útbúnaðarlistann okkar.

Við áskiljum okkur rétt til að fresta eða aflýsa ferðum vegna veðurs eða annarra óviðráðanlegra aðstæðna.

Ekki hika við að hafa sambandi við okkur í síma 571-2100 ef einhverjar spurningar vakna eða til að bóka ferð.

Samningsákvæði:

Allir þátttakendur í ferðum á vegum Jöklamanna, þ.m.t. jöklaferðum, eru á eigin ábyrgð. Jöklamenn bera ekki á nokkurn hátt ábyrgð vegna slysa sem rekja má til gáleysis eða grandleysis þátttakenda eða má ekki með beinum hætti rekja til stórkostlegs gáleysis eða ásetnings starfsmanna fyrirtækisins. Þátttakendum kann að vera gert að skrifa undir ábyrgðarleysisyfirlýsingu þess efnis, neitun á slíkri undirskrift fyrirgerir þátttakanda rétt til ferðar. Þrátt fyrir að ekki sé sérstaklega undirrituð slík yfirlýsing gildir fyrirvari þessi vegna allra ferða sem bókaðar eru hjá Jöklamönnum. Með kaupum og/eða þátttöku í ferðum á vegum fyrirtækisins hafa þátttakendur staðfest að þeir gera sér grein fyrir þeirri áhættu sem fylgir slíkum ferðum og að þeir eru á eigin ábyrgð.